Um Curator

Curator er félag hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands. Félagið var stofnað árið 1985 þegar hjúkrunarfræði var enn kennd við Hjúkrunarskóla Íslands, en hjúkrunarfræði færðist yfir á háskólastig árið 1986 og var þá kennd við Læknadeildina. Árið 2000 var svo sett á legg hjúkrunarfræðideild í þeirri mynd sem hún er í dag.

Þeir sem stunda grunnnám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands eiga kost á því að gerast félagsmenn í Curator. Árið 2019 var komið á samstarfi við Eir, félag heilbrigðisnema við Háskólann á Akureyri og í því felst að fjarnemar sem stunda nám í Reykjavík eiga einnig kost á að hljóta aðild að Curator.

 

Markmið félagsins eru:

a) Að gæta hagsmuna nemenda og vera málsvari þeirra innan háskólans og utan.

b) Að auka fræðslu og efla kynni meðal nemenda.

c) Að auka erlend samskipti.

d) Að stuðla að góðri samvinnu nemenda við aðrar heilbrigðisstéttir.

Curator viðheldur öflugu félagslífi og er með reglulega viðburði í gegnum skólaárið. Auk þess skipuleggur Curator námskeið fyrir lokapróf sem hafa heitið „NKN-námskeið“ eða „Nemar kenna nemum“. Þar fá eldri nemendur sem hafa staðið sig vel í námi tækifæri til að halda námskeið úr ákveðnum námsgreinum á launum.

Curator hefur aðild að Heiló, fulltrúaráði Heilbrigðisvísindasviðs þar sem nemendafélög auk Stúdentaráði Háskóla Íslands sinna hagsmunum stúdenta á Heilbrigðisvísindasviði. Curator hefur sömuleiðis fulltrúa sem sitja á deildarráðsfundum hjá Hjúkrunarfræðideild og taka þátt í umræðum sem snúa að hagsmunum nemenda.

Curator situr í NSSK (Nordiske Sykepleierstudenters Kontaktforum) sem er samnorræn samstarfsvettvangur fyrir norræna hjúkrunarnema á vegum NNF (Nordic Nurse Federation). Hagsmunafulltrúi Curator sækir fundi NSSK sem eru haldnir tvisvar á ári. Curator og Eir, félag heilbrigðisnema við Háskólann á Akureyri hafa samstarfsvettvang hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, formaður Curator og hagsmunafulltrúi sitja þá fundi.

Skrifstofa Curator er staðsett í kjallara Eirbergs, á móti aðstöðu nemenda. Þegar gengið er niður stigann þá er það fyrsta herbergi á vinstri hönd.

Til að hafa samband við stjórn Curator þá má senda póst á curator@curator.is.

Texti var uppfærður 17.08.2019